Komi Paul Scholes við sögu með Manchester United gegn Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford annað kvöld spilar miðjumaðurinn knái 600. leik fyrir félagið. Aðeins þrír leikmenn hafa spilað yfir 600 leiki fyrir félagið, Bill Foulkes, Sir Bobby Charlton og Ryan Giggs, sem er leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi.
Scholes hefur leikið allan sinn feril með Manchester United en hann spilaði sinn fyrsta leik með liðinu árið 1994 gegn Port Vale. Hann var þá 19 ára gamall.
Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United segir að honum hafi aldrei borist nein fyrirspurn um Scholes en þessi hógværi leikmaður hefur reynst Manchester-liðinu ákaflega vel.
,,Það er broslegt að okkur hefur aldrei borist fyrirspurn um Scholes. Þið vitið af hverju? Vegna þess að allir hafa vitað að hann myndi aldrei fara frá okkur,“ sagði Ferguson.
Scholes er 34 ára gamall og er samningsbundinn Manchester United til ársins 2010. Hann ákvað að segja skilið við enska landsliðið fyrir fimm árum og vildi með því eyða meiri tíma með fjölskyldu sinni en Scholes þykir afar heimakær og líður best heima með eiginkonu sinni og þremur börnum.