Ferguson: Bikarinn truflar okkur ekki

Alex Ferguson stefnir ótrauður á enska meistaratitilinn.
Alex Ferguson stefnir ótrauður á enska meistaratitilinn. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að ósigurinn gegn Everton í undanúrslitum bikarkeppninnar um síðustu helgi trufli liðið ekkert í baráttunni um enska meistaratitilinn. United tekur á móti Hermanni Hreiðarssyni og félögum í Portsmouth í kvöld.

„Við töpuðum þessum undanúrslitaleik í bikarnum gegn Everton bara í vítaspyrnukeppni og það getur komið fyrir alla. Það er nægur metnaður til staðar til að liðið muni standa sig gegn Portsmouth, við erum mjög einbeittir á það verkefni sem við eigum fyrir höndum. Menn verða alltaf að jafna sig eftir ósigra á einhverju stigi, og yfirleitt gerum við það. Við töpuðum tveimur leikjum í röð, gegn Liverpool og Fulham, en síðan höfum við sigrað Aston Villa, Porto og Sunderland.

Við eigum sjö deildaleiki eftir til að ná settu marki og við stefnum á að vinna þá alla," sagði Ferguson við BBC.

Liverpool komst uppfyrir Manchester United á markatölu í gærkvöld með jafnteflinu við Arsenal, 4:4. Bæði lið eru með 71 stig en United á tvo leiki til góða og stendur því mun betur að vígi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert