Argentínski knattspyrnumaðurinn Carlos Tévez segir að það sé líklegt að hann yfirgefi Manchester United í sumar þar sem honum hafi ekki tekist að festa sig nægilega vel í sessi í liðinu.
Eftir að United keypti Dimitar Berbatov síðasta sumar þrengdist hagurinn hjá Tévez og enda þótt hann hafi spilað talsvert, hefur hlutskipti hans oft verið að vera varamaður, og að sitja hjá í stærstu leikjunum.
„Ég hef fengið mörg tilboð, ekki bara frá spænskum liðum," sagði Tévez við Fox Sports Radio Del Plata í dag.
„Ég þarf að skoða hvert ég get farið og hvað sé hægt að gera. Launin skipta ekki öllu máli, ég þarf að tryggja að fjölskyldunni líði vel, sérstaklega dóttur minni," sagði Tévez og í máli hans kom ennfremur fram að hjá Manchester United dygði ekki að spila vel til að halda sér í liðinu, vegna þess hve vel mannað það væri.
„Þó maður skori þrennu eða fernu er ekki sjálfsagt að spila næsta leik. Hér eru fjölmargir góðir leikmenn en ég þarf sjálfur á því að halda að spila sem mest. Ég æfi vel alla daga og hef aldrei talað illa um samherja mína eða aðra í kringum liðið en staðreyndin er einfaldlegea sú að ég hef aðra kosti til að skoða fyrir næsta tímabil.
Hér eru fjölmargir leikmenn sem allir þurfa sinn tíma í liðinu en ég tel mig ekki hafa tapað mínu sæti. En ég hef ekki fengið að spila þýðingarmestu leikina. Ég var ekki með í stórleiknum gegn Chelsea og slíkum leikjum vil ég ekki missa af," sagði Carlos Tévez.