Andrei Arshavin, Rússinn snjalli í herbúðum Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, segist ætla að skora fimm mörk þegar liðið mætir Manchester United á Old Trafford þann 16. maí næstkomandi. Hann gerði fjögur mörk gegn Liverpool á dögunum.
„Ég veit að mörkin mín vöktu athygli um allan heim. Og nú veit ég að ég valdi rétt með að fara til Arsenal. Ef ég hefði skorað 24 mörk í einum leik í Rússlandi, hefði engum utan Rússlands þótt það tiltökumál. Hvað myndi gleðja mig meira en að skora fjögur gegn Liverpool? Að sigra deildina auðvitað og að skora fimm gegn Manchester á Old Trafford. Ætli ég geri það ekki bara,“ sagði Arshavin, sem mun eflaust ekki ná að vinna deildina í ár, þar sem Arsenal er í fjórða sæti með 62 stig, 12 stigum á eftir toppliði Manchester United.