Ráðning Roy Keane sem nýs knattspyrnustjóra Ipswich Town var staðfest í morgun og hefur hann skrifað undir tveggja ára samning við félagið. Hann tekur við af Jim Magilton sem var sagt upp störfum í gær.
Keane hætti störfum hjá Sunderland í desember en hann tók þar við stjórninni í ágúst 2006 og fór með liðið af botni 1. deildar og uppí úrvalsdeildina.
„Við erum algjörlega samstíga í metnaði okkar fyrir hönd Ipswich Town. Keane hefur geysilega mikil sambönd í fótboltanum, hann er sigurvegari sem hvetur lið sitt til að spila góðan fótbolta, sem stuðningsmenn Ipswich eru vanir. Ég er sannfærður um að hann er rétti maðurinn til að fara með liðið þangað sem það á heima - í úrvalsdeildina," sagði Marcus Evans, eigandi Ipswich, á vef félagsins.
Keane er 37 ára gamall og var sigursæll fyrirliði Manchester United um árabil. Hann kom til félagsins frá Nottingham Forest árið 1993 og spilaði með því í þrettán ár, og lauk síðan ferlinum sem leikmaður með Celtic í Skotlandi vorið 2006 eftir að hafa lent uppá kant við Alex Ferguson, knattspyrnustjóra United.
Keane er írskur og lék 66 landsleiki fyrir hönd þjóðar sinnar á árunum 1991 til 2005.
Ipswich Town er í 9. sæti 1. deildar og hefur spilað í deildinni undanfarin sjö ár, eftir að hafa síðast leikið í úrvalsdeildinni 2002. Ipswich varð enskur meistari 1962, bikarmeistari 1978 og UEFA-meistari 1981.