Benítez: Ferguson með sérstakt leyfi?

Rafael Benítez getur ekki stillt sig um að beina spjótum …
Rafael Benítez getur ekki stillt sig um að beina spjótum sínum í átt að Manchester United. Reuters

Þrátt fyrir yfirlýsingar um að hann væri hættur orðaskaki við Alex Ferguson í fjölmiðlum, sendi Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, sneiðar í átt að kollega sínum hjá Manchester United í samtali við spænska dagblaðið ABC sem kom út í morgun.

Benítez sagði þar að hann væri ekki í neinu rifrildi við Alex Ferguson. „En ég tel að hann sjái sjálfur að við erum með betra lið en þeir og veitum United mjög harða keppni. Hann hefur fengið að beita sínum sálfræðihernaði um árabil án þess að neinn hafi staðið uppi í hárinu á honum. Það er eins og hann hafi sérstakt leyfi til að láta svona. Ég reyni að segja ekki of mikið sjálfur, og geri þá ekki annað en að verja mitt lið," sagði Benítez og vildi leiðrétta fyrri orð sem höfð voru eftir honum.

„Ég sagði aldrei að hann virtist hræddur. Ég sagði að hann virtist vera taugaóstyrkur vegna þess að við erum rétt á eftir hans liði," sagði spænski stjórinn.

Um baráttuna við United um meistaratitilinn sagði Benítez: „Við verðum að halda pressu á þeim, megum ekki slaka á, og ef okkur tekst það, mun álagið á þeim aukast. Þeir eru með forskot og ef þeim verða ekki á mistök, getum við ekkert gert. Við verðum að halda okkur eins nálægt þeim og við getum og vera tilbúnir ef þeir misstíga sig. Hvort sem er, munum við freista þess að hreppa meistaratitilinn á meðan þess er nokkur von."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert