Tillaga Phils Gartsides, stjórnarformanns Bolton, um tvöfalda enska úrvalsdeild í knattspyrnu, var ekki formlega rædd á fundi stjórnarformanna deildarinnar í gær. Hún verður væntanlega tekin fyrir á aðalfundi deildarinnar í júní.
Í tillögu Gartsides er gert ráð fyrir úrvalsdeild 1 og úrvalsdeild 2, samtals 36 liðum, þar sem skosku liðin Celtic og Rangers fengju inngöngu. Lið myndu ekki falla úr úrvalsdeild 2 niður í ensku deildakeppnina, Football League.
Tillagan þarf samþykki 14 af 20 félögum í úrvalsdeildinni og þegar hafa einir 7-8 stjórnarformenn lýst sig samþykka henni.