Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United sagði eftir sigurinn ótrúlega á Tottenham í kvöld að innkoma Carlosar Tevéz hefði skipt sköpum en Argentínumaðurinn blés svo sannarlega lífi í leik sinna manna í seinni hálfleik.
,,Við vorum of hægir í fyrri hálfleik og kærulausir. Við þurftum að keyra upp hraðann í seinni hálfleik og Tévez sá um að gera það. Hann kveikti svo sannarlega í liðinu. Við urðum að skora snemma í seinni hálfleik og við höfðum heppnina með okkur að fá vítaspyrnuna. Fótboltinn er skrýtinn en um síðustu helgi féllum við úr leik í bikarnum með því að fá ekki dæmda vítaspyrnu,“ sagði Sir Alex Ferguson eftir leikinn.
Harry Redknapp sagði að vendipunktur leiksins hafi verið þegar Howard Webb dæmdi vítaspyrnuna.
,,Áður en vítaspyrnan var dæmd þá sá ég það ekki fyrir mér að við myndum tapa leiknum. Þetta var hræðileg ákvörðun hjá dómaranum að dæma víti. Gomes sýndi frábær tilþrif með úthlaupinu og þetta var því algjör gjöf. Webb er álitinn vera okkar besti dómari en ef hann er sá besti þá myndi ég þola að sjá það versta,“ sagði Redknapp.