Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal er bjartsýnn fyrir viðureignirnar gegn Manchester United í undanúrslitum Meistaradeildarinnar en fyrri leikur liðanna verður á Old Trafford í kvöld. Wenger segir að tími Arsenal á að hampa Evrópumeistaratitlinum sé nú runninn upp.
Arsenal komst næst því að hampa Evrópumeistaratitlinum árið 2006 en liðið komst þá í úrslit þar sem það tapaði fyrir Barcelona. Möguleiki er á að sömu lið eigist við í úrslitum í Róm í næsta mánuði.
,,Þetta er stundin sem við höfum allir beðið eftir. Það er stórt skarð í sögu félagsins og við erum allir staðráðnir í að eyða því. Þess vegna erum við þar sem við erum. Ég er bjartsýnn og hef trú á að við vinnum Meistaradeildina, því fyrr því betra,“ segir Wenger í viðtali við breska liðið The Sun í dag.
Arsenal hefur ekki unnið titil síðan 2005 þegar liðið varð enskur bikarmeistari en Wenger hefur fullvissað stuðningsmenn Arsenal um að hann sé staðráðinn í endurvekja góða tíma hjá félaginu með því að vinna titla.
,,Ég er á því þrepi á mínum ferli þar sem ég er meira að hugsa um félagið, stuðningsmennina og leikmennina heldur en að gera þetta fyrir mig. Ég veit hversu mikla þýðingu þessi keppni hefur fyrir þá. Mín löngun er alltaf sú að vinna allt saman en það er ekki mögulegt í lífinu svo þú verður alltaf svekktur,“ segir Wenger.