Hughes neitar viðræðum um Eto'o

Samuel Eto'o er ekki á förum til Manchester City.
Samuel Eto'o er ekki á förum til Manchester City. Reuters

Mark Hughes, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að ekkert sé hæft í fréttum um að forráðamenn félagsins hafi rætt kaup á Samuel Eto'o frá Barcelona þegar þeir hittu katalónska kollega sína á fundi fyrir skömmu.

Þeir Garry Cook framkvæmdastjóri City og Joan Laporta forseti Barcelona hittust á fundi og í framhaldi af því fóru af stað fregnir um að Eto'o gæti verið á leið til enska liðsins í sumar.

„Fundurinn hjá Garry Cook og Laporta var settur á til þess að reyna að byggja upp samband á milli félaganna á öllum sviðum, bæði hvað varðar rekstur og fótbolta. Ég hélt að tilgangur fundarins hefði verið útskýrður í fjölmiðlum. Hann snerist ekki um einstaklinga heldur samband félaganna. Fólk reynir stöðugt að rangtúlka þau skilaboð sem við reynum að koma á framfæri og útskýra hlutina á annan hátt," sagði Hughes við Sky Sports í dag.

Hann viðurkenndi að City hefði snjalla leikmenn í sigtinu en þeir horfðu ekki til Barcelona í þeim efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert