Fer Hermann til Rangers?

Hermann reynir hér að stöðva Cristiano Ronaldo í leik Portsmouth …
Hermann reynir hér að stöðva Cristiano Ronaldo í leik Portsmouth og Manchester United á dögunum. reuters

Hermann Hreiðarsson leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Portsmouth gæti verið á förum til skoska úrvalsdeildarliðsins Rangers í sumar að því er haft er eftir umboðsmanni hans, Ólafi Garðarssyni, í skoskum fjölmiðlum í dag. Hermann rennur út á samningi við Portsmouth í sumar. 

,,Ég veit að Hermann er einn af þeim valkostum sem Rangers hefur litið til. Hann er laus undan samningi í sumar og þegar hafa nokkur félög sagt að þau vilji fá hann í sínar raðir,“ segir Ólafur Garðarsson í viðtali við The Sun í Skotlandi en á dögunum bárust að því fréttir að Wolves hefði augastað á Eyjamanninum sterka.

,,Hermanni lýst vel á þá hugmynd að spila í Skotlandi og hann myndi standa sig vel þar. Hann hefur spilað á Englandi í langan tíma og að færa sig yfir til Skotlands yrði eitthvað nýtt fyrir hann. Fólk mun tala um aldur hans en líkamlegt ástand hans er frábært. Hann getur spilað í þrjú til fjögur ár til viðbótar,“ segir Ólafur.


Hermann var orðaður við Rangers og Celtic í janúar þegar hann vildi ólmur komast í burtu frá Portsmouth. Ekkert varð hins vegar úr því að hann fengi að fara en eftir að Portsmouth losaði sig við Tony Adams úr stjórastólnum vænkaðist hagur Hermanns og hann hefur átt fast sæti í liðinu síðustu tvo mánuði og hefur staðið sig afar vel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert