Crewe Alexandra, undir stjórn Guðjóns Þórðarson, tapaði í dag fyrir Leicester City, 0:3, í lokaumferð ensku 2. deildarinnar í knattspyrnu og féll þar með niður í 3. deild.
Sigur í dag hefði ekki dugað Crewe til að halda sæti sínu því keppinautarnir í fallslagnum, Carlisle og Brighton, unnu bæði sína leiki. Guðjón tók við Crewe í vonlausri stöðu um áramót en virtist um tíma vera á góðri leið með að bjarga liðinu frá falli og það komst um tíma í 18. sæti af 24 liðum í deildinni. Endaspretturinn var hinsvegar slæmur og niðurstaðan varð fall í 3. deild.
Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn með Crewe í dag en hann lauk þar með lánsdvöl sinni hjá félaginu og snýr aftur til Reading. Staðan var 0:0 í 55 mínútur en 2. deildarmeistarar Leicester tóku völdin eftir það.
Auk Crewe falla Northampton, Cheltenham og Hereford niður í 3. deildina.
Leicester og Peterborough fara beint uppí 1. deild og í umspili um eitt sæti þar leikur MK Dons við Scunthorpe og Leeds við Millwall.
Brentford, Wycombe Wanderers og Exeter City hafa tryggt sér sæti í 2. deild og þá leika Bury, Gillingham, Rochdale og Shrewsbury í umspili um eitt sæti þar.