United með sex stiga forystu

Ryan Giggs skoraði fyrir United í dag.
Ryan Giggs skoraði fyrir United í dag. Reuters

Englandsmeistarar Manchester United hafa nú 6 stiga forskot á Liverpool í baráttunni um enska meistaratitilinn í knattspyrnu eftir 2:0-útisigur United á Middlesbrough.

Gamli refurinn Ryan Giggs kom United yfir með marki á 25. mínútu en Ji-Sung Park bætti svo við öðru marki á 51. mínútu og þar við sat. Manchester United hefur nú 80 stig í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 34 umferðir, Liverpool hefur 74 stig í 2. sætinu og Chelsea hefur 71 stig í 3. sæti.

Klukkan 14:00 eru svo 6 leikir til viðbótar í ensku úrvalsdeildinni. Þá mætast Chelsea og Fulham, Manchester City og Blackburn, Portsmouth og Arsenal, Stoke og West Ham, Tottenham og W.B.A. og Wigan og Bolton.

Fylgst var með því helsta í leik Middlesbrough og Manchester United hér á mbl.is og ítarlega textalýsingu leiksins má sjá hér.

51. Ji-Sung Park kom United í 2:0. Wayne Rooney átti góða sendingu inn á vítateig Middlesbrough og hlaupið hjá Park inn fyrir vörn Boro var gott. Park sendi boltann svo auðveldlega framhjá markverði Boro og staðan 2:0.

49. Dauðafæri hjá Federico Macheda sem fékk sendingu frá Wayne Rooney inn á vítateig Middlesbrough, skammt frá markinu. Macheda fór hins vegar ill að ráði sínu og sendi knöttinn framhjá af stuttu færi.

25. Gamla brýnið Ryan Giggs kom Man. Utd. yfir með laglegu marki utan vítateigs. Fékk stutta sendingu frá Federico Macheda og skaut góðu skoti eftir jörðinni og framhjá Brad Jones í marki Boro, 0:1.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert