Ferguson: Mikilvægt að ná að skora

Nemanja Vidic, Carlos Tevez og Paul Scholes á æfingu Manchester …
Nemanja Vidic, Carlos Tevez og Paul Scholes á æfingu Manchester United í kvöld. Reuters

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United segir lið sitt muni ekki liggja til baka og reyna að verja forskot sitt þegar það mætir Arsenal í síðari undanúrslitarimmu liðanna í Meistaradeildinni á Emirates Stadium annað kvöld. United hafði betur í fyrri leiknum, 1:0, með marki varnarmannsins John O'Shea.

,,Við mætum til leiks staðráðnir í að skora mark og það er mikilvægt að sýna það strax í leiknum. Liðið hefur þann hæfileika að skora mörk og vonandi gerum við það því það myndi koma okkur í mjög sterka stöðu,“ segir Ferguson á vef félagsins.

,,Ég býst fastlega við mjög jöfnum og spennandi leik. Hann gæti jafnvel farið út í framlengingu og vítaspyrnu og þess vegna segi ég það svo mikilvægt fyrir okkur að skora,“ segir Ferguson en takist Englands- og Evrópumeisturunum að skora á Emirates þarf Arsenal að skora þrjú mörk til að komast í úrslitaleikinn.

,,Við reiknum með því að Arsenal reyni að sækja stíft á okkur. Við höfum mætt Arsenal nógu oft í gegnum tíðina til að vita það svo þar af leiðandi þurfum við svipaða frammistöðu eins og við náðum á móti Porto á útivelli og sömu einbeitingu og liðið var með í þeim leik,“ segir Ferguson.





mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert