Enn er óvíst hvort Thierry Henry geti leikið með Barcelona í kvöld þegar liðið mætir Chelsea á Stamford Bridge í London, en það er seinni viðureign liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Fyrri leikurinn á Camp Nou endaði 0:0.
Henry meiddist í leiknum gegn Real Madrid á laugardagskvöldið og Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, sagði á fréttamannafundi í gær að það væri óvíst að Frakkinn snjalli yrði með í leiknum.
Guardiola fór með 22 leikmenn til London og hefur ekkert gefið upp um hvernig 18 manna hópurinn verði skipaður. Það skýrist því ekki fyrr en síðar í dag hvort Eiður Smári Guðjohnsen eigi möguleika á að mæta sínu gamla félagi.
„Allir leikmenn Chelsea eru hættulegir. Liðið getur leikið á ýmsa vegu og er með mjög sveigjanlegt leikkerfi. Drogba er geysilega sterkur frammi, allt liðið berst grimmilega og kann að vinna boltann af mótherjunum. Þeir eru með eitt líkamlega sterkasta lið Evrópu, og spilar jafnframt mjög góðan fótbolta," sagði Guardiola í gær.