Gerard Pique miðvörður Barcelona segir að það verði sérstakt fyrir sig að mæta sínum gömlu félögum í Manchester United í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en Pique yfirgaf United eftir tímabilið í fyrra og gekk í raðir Börsunga.
Pique sagði í viðtali við Sky Sport eftir leikinn að boltinn hefði haft viðkomu í hönd sinni inní vítateignum en norski dómarinn Tom Ovrebo lokaði augunum og dæmdi ekki vítaspyrnu sem Chelsea hefði með réttu átt að fá.
,,Ef ég að vera hreinskilinn þá fór boltinn í höndina en ég vildi ekki koma við hann. Dómarinn getur ákveðið sem hann vill og hann ákvað að þetta væri ekki vítaspyrna og maður verður bara að virða þá ákvörðun,“ sagði Pique.
,,Stundum eru ákvarðanir ekki réttar en ég er bara ánægður að vera kominn í úrslitin. Það verður sérstakt fyrir mig að mæta mínu gamla liði í úrslitaleiknum og þá kannski meira af því að þetta er úrslitaleikur. Ég átti þrjú góð ár hjá United og það verður gaman að mæta því.“