Arsenal vill halda í Wenger

Wenger hefur verið hjá Arsenal síðan 1996.
Wenger hefur verið hjá Arsenal síðan 1996. Reuters

„Stjórnarformaður Arsenal, Peter Hill-Wood, er reiðubúinn að bjóða Arséne Wenger, knattspyrnustjóra liðsins, nýjan samning, þó svo liðið hafi valdið stuðningsmönnum sínum vonbrigðum, með titlalausu tímabili.

„Framtíð Wenger er ekki í hættu, þó svo ég sé þess viss að einhverjir vilji láta ykkur halda að svo sé. Hann á eitt ár eftir af samningnum og ef hann biður um framlengingu yrði ég hæstánægður. En við höfum ekki rætt þetta við hann og hann ekki við okkur. Við höfum öll haft öðrum hnöppum að hneppa,“ sagði Hill-Wood.

Hann sagði jafnframt að Wenger hefði úr nægu fé að ráða til leikmannakaupa í sumar og félagið hefði aldrei neitað honum um fé til leikmannakaupa.

„Við höfum aldrei neitað Wenger um nein leikmannakaup. Við eyddum talsverðu fé í Arsavin í janúar. En peningarnir verða til staðar einnig í sumar, ef Wenger vill nota þá. Ég ætla ekki að gefa upp neina tölu, það myndi ekki hjálpa málstað okkar.“

Arsenal hefur ekki unnið titil síðan 2005 þegar liðið vann ensku bikarkeppnina. Það situr í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar, var slegið út af Chelsea í bikarkeppninni ensku og datt út fyrir Manchester United í Meistaradeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert