Didier Drogba framherji Chelsea hefur beðist afsökunar á framkomu sinni eftir leikinn gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á Stamford Bridge í gær. Drogba gerði aðsúg að norska dómaranum Tom Henning Övrebö og lét öllum illum látum og fékk að launum gult spjald eftir leikinn og gæti fengið refsingu frá UEFA vegna hegðunar sinnar.
Í yfirlýsingu frá Drogba segir meðal annars;
,,Ég var mjög æstur yfir því sem gerðist í leiknum en eftir að hafa séð upptöku af leiknum þá viðurkenni ég að ég fór yfir strikið. Ég viðurkenni fúslega líka að þau orð sem ég hafði eftir leikinn eru ekki gott fordæmi fyrir þá sem horfðu á leikinn í sjónvarpi, sérstaklega börn,“ en Drogba hrópaði fúkyrði fyrir framan myndavélar Sky sjónvarpsstöðvarinnar,.
,,Ég sé eftir því að í hita leiksins hagaði ég mér illa og lét vonbrigðin og ergelsið ráða ferðinni og ég biðst afsökunar.“