Eiður Smári Guðjohnsen fann svo til með fyrrum félögum sínum í Chelsea eftir leikinn í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í gærkvöld að hann tók ekki þátt í fagnaðarlátunum með leikmönnum Barcelona á Stamford Bridge.
Eiður, sem lék í sex ár með Chelsea áður en hann gekk í raðir Barcelona, er fyrsti íslenski knattspyrnumaðurinn sem leikur til úrslita í Meistaradeildinni en Barcelona og Manchester United eigast við í úrslitaleiknum í Róm þann 27. þessa mánaðar. Eiður kom inná fyrir Andres Iniesta og lék tvær síðustu mínútur leiksins í uppbótartímanum.
,,Þetta var erfitt. Ég var í erfiðri aðstöðu eftir leikinn og vildi ekki fagna því margir af leikmönnum Chelsea voru bræður mínir í sex ár. En auðvitað er ég ánægður ásamt félögum mínum. Þetta er frábær stund. Fótboltinn er grimmur og Chelsea fékk að finna fyrir því.
Það er erfitt að segja til um það hvort við höfum verið betra liðið. Það er sagt að maður skapi sína eigin heppni en það var frábært að sjá hvernig við náðum að spila gegn þeim manni færri,“ segir Eiður í viðtali við enska blaðið London Evening Standard.