Spænska íþróttadagblaðið Marca, sem er gefið út í Madríd, fullyrðir í dag að Manchester City sé að undirbúa tilboð í Raúl, fyrirliða Real Madrid og einn þekktasta knattspyrnumann Spánar undanfarinn áratug.
Raúl, sem er 31 árs sóknarmaður, er með samning við Real Madrid til vorsins 2011, með ákvæði um framlengingu eftir því hve marga leiki hann spilar á hverju tímabili.
Marca segir að fulltrúar eiganda City, Sheikh Mansour, séu komnir í viðræður við Gines Carvajal, umboðsmann Raúls, og samkvæmt drögum að samningstilboði séu honum boðnar 35 milljónir punda á næstu fjórum árum.
Manchester City hefur verið orðað við margar af stórstjörnum evrópskrar knattspyrnu eftir að arabísku eigendurnir tóku þar við völdum.