Gerrard: Vonum að City geri okkur greiða

Steven Gerrard er hér að skora annað mark sitt gegn …
Steven Gerrard er hér að skora annað mark sitt gegn West Ham. Reuters

Steven Gerrard fyrirliði Liverpool vonar að Manchester City haldi titilvonum liðsins gangandi með því að taka stig af meisturum Manchester United en liðin eigast við á Old Trafford á morgun. Gerrard átti stóran þátt í að skjóta Liverpool í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar í dag en hann skoraði tvö af mörkum liðsins í 3:0 útisigri gegn West Ham.

Liverpool og United eru með 80 stig en Liverpool heldur toppsætinu vegna betri markatölu en staða Manchester-liðsins er vænlegri því það á eftir að spila fjóra leiki en Liverpool aðeins tvo.

Áður en Liverpool mætir WBA á sunnudaginn getur United verið komið með níu stiga forskot en meistararnir taka á móti Manchester City á morgun, sækja Wigan heim á miðvikudaginn og leika gegn Arsenal á Old Trafford á laugardaginn.

,,Það var mikilvægt fyrir okkur að halda áfram og vinna og við verðum að vinna þá leiki sem við eigum eftir til að eiga möguleika. Ef United vinnur sína leiki þá verðskuldar liðið titilinn en þessa stundina verðskuldum við að vera í toppsæti deildarinnar," sagði Gerrard eftir sigurinn á Boylen Ground.
 
,,United á erfiðan leik á móti Man City á morgun. City hefur verið á ágætu skriði og grannslagir eru aldrei auðveldir. Við verðum bara að bíða og vona að City geri okkur greið. Hvað sem gerist þá höfum við bætt okkur mikið á tímabilinu. Það er 9. maí og og við erum enn í barráttunni um titilinn og það höfum við ekki getað sagt lengi. Þetta sýnir okkur að við erum með gott lið, góða leikmenn og það er góð samheldni í okkar liði," sagði Gerrard.

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert