Stoke áfram í úrvalsdeildinni

Jack Rodwell og Luca Modric í baráttunni í leik Everton …
Jack Rodwell og Luca Modric í baráttunni í leik Everton og Tottenham. Reuters

Nýliðar Stoke eru endanlega lausir úr fallbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni eftir góðan 2:1 útisigur á Hull á KC vellinum í Hull  í dag. Blackburn og Bolton kræktu í mikilvæg stig og fóru langt með að bjarga sér frá falli en Hermann Hreiðarsson og félagar hans í Portsmouth eru ekki sloppnir eftir tap gegn Blackburn.

Ricardo Fuller og Liam Lawrence komu Stoke í 2:0 en Andy Dawson minnkaði muninn fyrir Hull á lokamínútunni. Hull er í frjálsu falli en liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu 19 leikjum sínum.

Morten Gamst Pedersen og Benni McCarthy gerðu mörkin fyrir Blackburn og skoraði McCarthy síðara markið úr vítaspyrnu sem dæmd var á Hermann Hreiðarsson fyrir að slæma hendinni í boltann innan teigs. Portsmouth fékk vítaspyrnu fimm mínútum fyrir leikslok en John Utaka skaut yfir markið úr vítinu.

Grétar Rafn Steinsson lék allan tímann með Bolton sem gerði markalaust jafntefli við Sunderland. Bolton er með 40 stig og er væntanlega búið að bjarga sér en Sunderland hefur 36 stig og er í bullandi fallbaráttu.

WBA eygir smá von um að bjarga sér frá falli eftir 3:1 sigur á Wigan á heimavelli sínum. WBA, Newcastle og Middlesbrough hafa öll 31 stig botnsætunum þremur en Newcastle og Middlesbrough mætast á mánudaginn. Hull er síðan í fjórða neðsta sætinu með 34 stig.

Úrslitin í dag.

Everton - Tottenham 0:0

Bolton - Sunderland 0:0

WBA  - Wigan 3:1 (Marc-Antoine Fortuné 14., Chris Brunt 59., Marc-Antoine Fortuné 79. - Hugo Rodallega Martinez 17.)

Hull - Stoke 1:2 (Dawson 90. - Ricardo Fuller 41., Liam Lawrence 72.)

Blackburn - Portsmouth 2:0 (Morten Gamst Pedersen 31., Benni McCarthy 58.)

Fulham - Aston Villa 3:1 (Danny Murphy 6. víti, Diomansy Kamara 48., 60. - Ashley Young 14.)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert