Enski landsliðsmaðurinn Ledley King, fyrirliði enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham, var í nótt handtekinn fyrir utan skemmtistað í London en hann er grunaður um að hafa ráðist á ungan mann á skemmtistaðnum.
King, sem er 28 ára gamall, lék með Tottenham á Goodison Park í gær þar sem Everton og Tottenham gerðu markalaust jafntefli. Hann á að baki 19 leiki með A-landsliði Englendinga og hefur leikið um 250 leiki með Tottenham-liðinu en meiðsli hafa leikið hann grátt á ferlinum.