Talsmaður evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, sagði við frönsku fréttastofuna AFP í morgun að Didier Drogba framherji Chelsea gæti þurft að bíða í nokkrar vikur með að fá að vita hvort hann verður dæmdur í leikbann vegna framkomu sinnar eftir leikinn gegn Barcelona í Meistaradeildinni í síðustu viku.
Talsmaðurinn sagði aganefnd UEFA myndi ræða málið á fundi sem er ekki áætlaður fyrr en 23. júlí en hann sagði að ekki lægi á úrskurði þar sem Chelsea væri fallið úr leik í Evrópukeppninni þetta tímabili.
Líklegt er að Drogba verði úrskurður í leikbann en hann gekk af göflunum eftir leikinn á Stamford Bridge og lét norska dómarann Tom Henning Övrebo fá það óþvegið.
Övrebo gaf Droba gult spjald eftir leikinn en auk þess að hella sér yfir dómarann gekk Fílabeinsstrandarmaðurinn í átt að myndavélum Sky og öskraði ljót orð sem sjónvarpsáhorfendur út um allan heim fengu beint í æð.