Grétar Rafn Steinsson, knattspyrnumaður hjá Bolton Wanderers, er afar ánægður með stjóra sinn, Gary Megson, sem hann segir hafa náð töluverðum árangri með liðið síðan hann tók við því fyrir 19 mánuðum.
„Ég tel að við ættum að vera ögn jákvæðari varðandi gengi liðsins. Þegar ég kom hingað var mikið um neikvæðni. Við höfum fengið inn góða leikmenn, breytt ýmsu og þegar haft er til hliðsjónar þeir peningar sem við höfum í höndunum, þá erum við að taka miklum framförum,“ sagði Grétar Rafn við The Bolton News.
„Síðasta tímabil var erfitt. Þetta tímabil hefur verið miklu miklu betra. Ég held að við getum bara verið ánægðir með þann árangur sem við höfum náð, heilt á litið. Það eru nokkrir hlutir sem við gætum gert betur, og við munum bæta það í sumar og koma betri til næstu leiktíðar. Við erum lítið félag, borið saman við önnur félög, og við verðum að taka eitt tímabil í einu. Það er ekki hægt að bera okkur saman við félög eins og Sunderland. Þeir hafa eytt svakalegum fjárhæðum í leikmenn. Við værum til í að hafa einn þriðja af þeim peningum til leikmannakaupa!“ bætti Grétar Rafn við.
Viðtalið í heild sinni má nálgast hér.