Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, hefur hótað því að setja leikmenn sína í áfengisbann í kjölfar þess að fyrirliðinn, Ledley King, var handtekinn aðfaranótt sunnudags, grunaður um líkamsárás í Soho-hverfinu í London.
„Ég mun setja strangar reglur fyrir næsta keppnistímabil þar sem áfengisneysla verður útskúfuð. Fótboltamenn eiga helga sig íþróttinni og ættu ekki að neyta áfengis. Þú setur ekki díselolíu á Ferrari. Ég veit að þetta er harkalegt en þeir fá gríðarhá laun og eru fyrirmyndir barnanna," sagði Redknapp.
King hefur beðist afsökunar á framferði sínu og segir að næturrölt með félögum sínum hafi gengið of langt. Hann var handtekinn en síðan látinn laus gegn tryggingu og mál hans verður tekið fyrir í júlí.
„Þessi vandamál væru úr sögunni ef leikmenn hættu aðdrekka. Það er enn of mikil drykkjumenning í enskum fótbolta þó hún sé ekki næstum því eins slæm og á árum áður. Hjá Tottenham vinnum við mikið með börnum, sem mörg hver eiga erfitt heima fyrir. Við verðum að setja gott fordæmi. Það er of mikið drukkið af áfengi í Englandi, það eru alltof margir sem telja sig ekki hamingjusama nema þeir hafi fengið sér áfengi," sagði Redknapp.