Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool er eins og kollegar hans á fullu í að púsla saman leikmannahópi fyrir næstu leiktíð. Víst er að Hollendingurinn Dirk Kuyt er ekki á förum frá félaginu en Benítez er ákaflega ánægður með framlag Kuyt og kallar hann herra Duracell.
,,Það er hægt að kalla hann Mr. Duracell. Hann hleypur allan leikinn og er ótrúlega orkumikill,“ segir Benítez í viðtali við Daily Telegraph en Durcell er þekkt batterístegund.
,,Við vissum þegar við sömdum við Kuyt hvaða tegund af leikmanni hann væri því hann hefur spilað með þessu hætti í gegnum árum. Hann hefur staðið sig virkilega vel með okkur á tímabilinu, hefur verið skapandi og skorað mörk en kannski er það vegna þess að liðið hefur hefur verið að standa sig betur,“ segir Benítez.
,,Það er hægt að nota hann í mörgum stöðum og ég get fullyrt að hann verður áfram í byrjunarliðinu hjá mér.“
Margir stuðningsmenn Liverpool höfðu efasemdir um Kuyt þegar hann gekk í raðir liðsins frá Feyenoord fyrir þremur árum. En þessi harðduglegi landsliðsmaður Hollendinga hefur vaxið í áliti hjá stuðningsmönnum Liverpool jafnt og þétt og á þessu tímabili hefur hann náð að skora 14 mörk og leggja upp mörg mörk fyrir samherja sína.