Steven Gerrard fyrirliði Liverpool hefur verið útnefndur knattspyrnumaður ársins á Englandi af íþróttafréttamönnum þar í landi en hann hafði betur í baráttunni við Wayne Rooney og Ryan Giggs, leikmenn Manchester United.
Íþróttafréttamenn, með fótbolta sem sérgrein, hafa útnefnd knattspyrnumann ársins frá árinu 1948 mun Gerrard taka við viðurkenningu sinni í veislu sem haldin verður í London í lok mánaðarins.
Gerrard hefur drifið lið Liverpool áfram á þessari leiktíð sem og undanfarin ár. Hann var einn sex leikmanna sem voru tilnefndir í vali knattspyrnumanns ársins af leikmönnum en Ryan Giggs varð fyrir valinu sem kunngert var í síðasta mánuði.
Gerrard skoraði tvö af mörkum Liverpool á móti West Ham um síðustu helgi og hefur þar með skorað 23 mörk á leiktíðinni í öllum keppnum, þar af 15 í úrvalsdeildinni, og hefur lagt upp mörg mörk fyrir félaga sína.
,,Frammistaða Stevens á þessari leiktíð hefur verið í hæsta gæðaflokki. Hann hefur drifið liðið áfram og það er ekki síst fyrir hans frammistöðu sem Liverpool er í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. Steven er klárlega á blómaskeiði sínu og er réttilega metinn einn besti miðjumaðurinn af sinni kynslóð,“ segir Steven Bates formaður Samtaka sparkskrifara á Englandi.