Ferguson og Kia ósammála um Tévez

Framtíðin hjá Carlos Tévez virðist enn óráðin.
Framtíðin hjá Carlos Tévez virðist enn óráðin. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóra Manchester United, og Kia Joorabchian, ráðgjafa og "eiganda" Argentínumannsins Carlosar Tévez, ber ekki saman um hvort sóknarmanninum snjalla hafi verið boðið að leika áfram með ensku meisturunum.

Tévez kom til United frá West Ham vorið 2007, á tveggja ára lánssamningi við Joorabchian, og United hafði forkaupsrétt á honum að þeim tíma liðnum, sem er í vor.

Joorabchian, sem kunnur er af afskiptum sínum af West Ham á sínum tíma, sagði við BBC að fundað hefði verið með framkvæmdastjóra Manchester United, David Gill. „Það er algjörlega ósatt að Manchester United hafi gert tilboð um að halda Carlos í sínum röðum," sagði ráðgjafinn.

Ferguson er ekki á sama máli. „Hann veit að ég vil hafa hann áfram. Við töluðum saman í dag og David Gill framkvæmdastjóri hefur fundað með honum. Við gerðum honum tilboð og vonum að hann taki því. Vandamálið er að við erum ekki að semja við knattspyrnufélag," sagði Ferguson.

Um síðustu helgi sagði Carlos að hann reiknaði með því að yfirgefa United í sumar vegna þess að hann hefði ekki fengið neitt tilboð.

„Hann er vonsvikinn yfir því hvernig farið er með hann, hann ætti ekki að vera í þessari stöðu. Hann gerði nóg til að vinna sér inn nýjan samning í fyrra en þeir ákváðu að gera ekkert í því og leita fyrir sér með aðra leikmenn. Í janúar hélt hann að sér yrði boðinn samningur, en það gerðist ekkert, og nú held ég að hann telji sig ekki jafn góðan og hann var þegar hann kom. Málið er að Carlos hefur ekki farið fram á neitt, og honum hefur ekki verið boðið neitt. Þannig stendur þetta," sagði Joorabchian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert