Leeds situr eftir í 2. deild

Gamla stórveldið Leeds United kemst ekki upp í ensku 1. deildina í knattspyrnu þetta vorið og þarf að hefja sitt þriðja tímabil í 2. deild, þriðju efstu deildinni, á komandi hausti. Leeds féll í kvöld út í undanúrslitum umspilsins þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við Millwall.

Leeds féll niður í 2. deild í fyrsta skipti vorið 2007 og tók með sér talsverða refsingu í stigum sem komu í veg fyrir að liðið kæmist aftur upp. Í vetur var liðið í baráttu í efri hlutanum og komst í umspilið um sæti í 1. deildinni, þar sem liðin í þriðja til sjötta sæti spila um að fara upp.

Millwall vann fyrri leik liðanna, 1:0, en Leeds jafnaði það upp í byrjun síðari hálfleiks í kvöld þegar Luciano Becchio skoraði, 1:0. Rétt á undan klúðraði félagi hans, Jermaine Beckford, vítaspyrnu.

Það var síðan Nadjim Abdou sem var hetja Millwall en hann jafnaði metin, 1:1, á 74. mínútu, og það tryggði Lundúnaliðinu réttinn til að leika til úrslita á Wembley um 1. deildarsætið.

Mótherjinn þar verður annaðhvort Milton Keynes Dons (gamla Wimbledon) eða Scunthorpe sem leika síðari leik sinn annað kvöld.

Leeds United má muna sinn fífil fegri en félagið varð enskur meistari í þriðja sinn árið 1992. Það var stöðugt í toppbaráttu úrvalsdeildarinnar á árunum 1996 til 2001 og komst vorið 2001 í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Leeds lenti í miklum fjárhagsvandræðum fljótlega eftir það, féll úr úrvalsdeildinni 2004, og hefur í vetur þurft að kljást við lið á borð við Cheltenham og Yeovil í stað þess að glíma við Liverpool og Manchester United.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert