Danski varnarmaðurinn Martin Laursen, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Aston Villa, mun í hádeginu tilkynna að hann hafi ákveðið að leggja skóna á hilluna vegna þrálátra meiðsla í hné sem hafa verið að plaga hann. Danska blaðið BT greinir frá þessu í dag.
Laursen mun tilkynna um ákvörðun sína á fréttamannafundi í Birmingham um hádegisbilið en í janúar ákvað hann að segja skilið við danska landsliðið. Þar með bindur Laursen enda á rúmlega 12 ára feril sinn sem atvinnumaður en þessi 31 árs gamli miðvörður var í fyrra kjörinn knattspyrnumaður ársins í Danmörku og var valinn leikmaður ársins hjá Aston Villa.
Laursen hóf ferilinn hjá Silkeborg í Danmörku. Hann gekk í raðir Parma á Ítalíu árið 2001 og fór þaðan til AC Milan sem hann lék með í fjögur ár en frá árinu 2004 hefur hann verið á mála hjá Aston Villa. Hann á að baki 53 leiki með danska landsliðinu.