Alan Shearer, knattspyrnustjóri Newcastle í ensku úrvalsdeildinni, segir að stjörnuframherji sinn, Michael Owen, sé ekki að leggja skóna á hilluna, líkt og látið hefur í veðri vaka í breskum fjölmiðlum.
„Hann þarf ekki á svona orðrómi að halda, hann á það ekki skilið. þessar sögur er algerlega úr lausu lofti gripnar og hann hló að þessu sjálfur. En Owen er stórt nafn og nafn hans vill oft rata í fyrirsagnir blaðanna,“ sagði Shearer.
Owen hefur ekki skorað fyrir Newcastle síðan 10. janúar, í 2:2 jafntefli gegn West Ham og hefur ekki þótt sýna sitt rétta andlit í síðustu leikjum. Owen, sem er 29 ára gamall, verður samningslaus í sumar og getur því farið þangað sem hann sjálfur kýs, en hann hefur verið orðaður við mörg lið að undanförnu, líkt og Liverpool, Tottenham, West Ham, Chelsea og Blackburn, svo fáein lið séu nefnd.
„Ég er 100% viss um að Owen spili áfram í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. En hvort sem það verður hér eða annarsstaðar kemur í ljós. En besta leiðin til að stinga upp í gagnrýnisraddirnar sem komu á orðróminum um að hann væri að hætta, er að fara út á völlinn og skora mörk,“ sagði Shearer.