Silvio Berlusconi, hinn litríki forseti ítalska knattspyrnufélagsins AC Milan og forsætisráðherra Ítalíu, segir að félag sitt eigi góða möguleika á að kaupa Tógómanninn öfluga Emmanuel Adebayor af Arsenal í sumar.
AC Milan vildi fá Adebayor síðasta sumar en það mál rann útí sandinn og framherjinn samdi að nýju við Arsenal. Eftir hluthafafund enska félagsins á fimmtudag spurðist það út að til greina kæmi að selja Adebayor fyrir 20 milljónir punda til að afla fjár til leikmannakaupa.
„Það eru góðir möguleikar á því að við getum fengi Adebayor. Við sjáum til hvað gerist eftir tímabilið. Ég tel að hann yrði góð fjárfesting fyrir okkur," sagði Berlusconi við ítalska fjölmiðla í gærkvöld.