Hermann Hreiðarsson og félagar í Portsmouth sigruðu Sunderland, 3:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld en þetta var síðasti leikurinn í 37. og næstsíðustu umferð deildarinnar.
Bein textalýsing frá Fratton Park.
Sunderland er enn í fallhættu eftir þennan ósigur en liðið er með 36 stig, Hull 35, Newcastle 34, Middlesbrough 32 og WBA er fallið með 31 stig.
Sunderland fær Chelsea í heimsókn í lokaumferðinni, Hull tekur á móti Manchester United og Newcastle sækir Aston Villa heim. Middlesbrough á útileik gegn West Ham og þarf nánast kraftaverk til að halda sér uppi.
Kenwyne Jones kom Sunderland yfir á 59. mínútu, 0:1, en John Utaka jafnaði um hæl fyrir Portsmouth á 60. mínútu. Portsmouth náði síðan forystunni á 68. mínútu þegar Phil Bardsley sendi boltann í eigið mark, 2:1.
Armand Traore bætti við marki fyrir Portsmouth á 88. mínútu, 3:1, og innsiglaði sigurinn.
Hermann Hreiðarsson lék allan leikinn með Portsmouth sem var sloppið úr fallhættu fyrir leikinn en liðið lyfti sér uppfyrir Blackburn og í 14. sætið.