Liðin sem eru í fallhættu í ensku deildinni ætla ekki að kæra Manchester United þó svo liðið stilli upp einhvers konar varaliði í leiknum við Hull í lokaumferðinni á sunnudaginn.
Liðin sem um ræðir eru Newcastle, Middlesbrougt og Sunderland, en orðrómur var uppi um að þau ætluðu sér að kæra United verði félagið með varalið á sunnudaginn, en talsmenn liðanna vísa því á bug.
Ekki er ólíklegt að Alex Ferguson, knattspyrnustjóri United, hvíli marga af lykilmönnum sínum á sunnudaginn enda úrslitaleikur Meistardeildarinnar á miðvikudaginn. United hefur þegar tryggt sér Englandsmeistaratitilinn og Ferguson því eðlilega með hugann við úrslitaleikinn við Barcelona á miðvikudaginn.