Arséne Wenger knattspyrnustjóri Arsenal ætlar ekki að fara til Real Madrid í sumar heldur ætlar hann að halda kyrru fyrir hjá Lundúnaliðinu sem hann hefur verið við stjórnvölinn hjá síðan árið 1996.
Síðustu dagana hefur Wenger verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá spænska stórliðinu og í kjölfar gagnrýni stuðningsmanna Arsenal á knattspyrnustjórann fengu þær sögusagnir byr undir báða vængi að Wenger væri hugsanlega á förum.
Í gær átti Wenger fund með Ivan Gazidis stjórnarformanni Arsenal þar sem þeir ræddu um næstu leiktíð og eftir fundinn staðfesti Wenger vilja sinn að stjórna áfram liði Arsenal, sem hann er samningsbundinn fram í júní 2011.
,,Þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af og ekkert tiltökumál fyrir mig. Ég verð hér áfram. Ef það breytist þá læt ég ykkur vita en þið skuluð ekki hafa áhyggjur af því,“ segir Wenger í viðtali við enska blaðið Daily Mail.