Ferdinand: Ég er tilbúinn

Rio Ferdinand segist vera orðinn leikfær eftir meiðslin.
Rio Ferdinand segist vera orðinn leikfær eftir meiðslin. Reuters

Rio Ferdinand, fyrirliði Manchester United, kveðst vera tilbúinn í slaginn með liðinu gegn Hull í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á sunnudag og úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Barcelona næsta miðvikudag.

Ferdinand meiddist á kálfa í seinni leiknum gegn Arsenal í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í lok apríl og hefur ekki spilað síðan. Alex Ferguson knattspyrnustjóri United sagði í gær að það væri hæpið að láta Ferdinand spila úrslitaleikinn ef það yrði hans fyrsti leikur frá því hann meiddist. Það væri því mikilvægt að miðvörðurinn myndi spila gegn Hull.

„Ég hef ekki einu sinni hugleitt þann valkost að spila ekki úrslitaleikinn. Það er einfalt mál, slíkt kemur ekki til greina. Ég æfði með bolta í dag (miðvikudag) og hljóp dálítið, og er því kominn af stað með allar þær hreyfingar sem ég þarf á að halda í undirbúningi fyrir leik. Þetta er mikilvægasta endurkoma mín eftir meiðsli á ferlinum, það er svo mikið í húfi," sagði Ferdinand við Sky Sports.

„Ég hef ekki velt úrslitaleiknum sjálfum svo mikið fyrir mér, ég hef einbeitt mér algjörlega að því að fá mig góðan af meiðslunum. Þegar við setjumst uppí flugvélina og höldum til Rómar, fer ég að huga að leiknum," sagði Ferdinand og vísaði á Ferguson með hvernig liðið yrði skipað gegn Hull.

„Þið verðið að spyrja stjórann hvort ég spili en fyrir mína parta er ég tilbúinn í slaginn - ekkert mál," sagði Rio Ferdinand.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert