Steven Gerrard fyrirliði Liverpool telur að sú reynsla sem liðið hafi öðlast með því að vera í titilbaráttunni á leiktíðinni muni gefa því byr undir báða vængi þegar flautað verður til leiks á næsta tímabili.
Liverpool er í öðru sæti fyrir lokaumferðina á sunnudaginn og verði annað sætið niðurstaðan er það besti árangur liðsins allar götur síðan 1990 þegar liðið hampaði Englandsmeistaratitlinum síðast.
,,Ég er mjög stoltur. Þetta er fyrsta sinn sem ég er í baráttunni um titilinn og ég hef notið þess sem og félagar mínir. Ég tel að við séum óheppnir að hafa ekki unnið titilinn en við getum tekið margt mjög jákvætt frá þessu tímabil,“ segir Gerrard á vef Liverpool.
,,Við höfum átt marga frábæra kafla á þessu ári og höfum náð vel saman sem lið. Ég tel að við getum nýtt þessa reynslu sem við höfum öðlast í ár með því að mæta til leiks á næstu leiktíð með bullandi sjálfstraust. Við stöndum uppi titlalausir í ár en ég held að við getum verið mjög ánægðir með frammistöðu liðsins. Það hefur bætt sig mikið og frá miðjum desember höfum við verið í meistaraform,“ segir Gerrard.
Með sigrinum á WBA um síðustu helgi náði Liverpool 83 stigum en svo mörg stig hefur það ekki hlotið frá stofnum ensku úrvalsdeildarinnar árið 1993.
,,Jafnteflin þrjú sem við gerðum á heimavelli í desember skiptu sköpum. Ef við hefðum unnið þá leiki værum við kannski orðnir meistarar eða að minnsta kosti enn í baráttunni um titilinn þegar einn leikur er eftir.“