Ferguson undrandi á Benítez

Knattspyrnustjórarnir Sir Alex Ferguson og Rafael Benítez þegar allt lék …
Knattspyrnustjórarnir Sir Alex Ferguson og Rafael Benítez þegar allt lék í lyndi á milli þeirra. Reuters

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Englands- og Evrópumeistara Manchester United viðurkennir að hann hafi verið undrandi að fá ekki hamingjuóskir frá Rafael Benítez kollega sínum hjá Liverpool eftir að United hampaði Englandsmeistaratitlinum um síðustu helgi.

Benítez ákvað að fara þá leið óska félaginu Manchester United til hamingju með titilinn en sendi Ferguson ekki neinar sérstakar hamingjuóskir.

,,Ég var undrandi á þessu. En þetta hefur verið frábært tímabil hjá okkur og ég hef ekki áhyggjur af öðrum,“ sagði Ferguson við fréttamenn í gær.

Þeir Ferguson og Benítez hafa svo sannarlega eldað grátt silfur saman á leiktíðinni og hafa skotið föstum skotum gegn hvor öðrum í fjölmiðlum en Liverpool var helsti keppinautur Manchester-liðsins um Englandsmeistaratitilinn.

Ferguson hafði betur í baráttunni eins og oftast en Manchester United varð um síðustu helgi Englandsmeistari í 18. sinn og jafnaði þar með árangur Liverpool sem hefur ekki unnið titilinn síðan árið 1990.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert