Síðasta umferðin í ensku úrvalsdeildinni verður leikin á morgun, sunnudag. Þó svo Manchester United sé orðið meistari ríkir nokkur spenna því enn geta nokkur lið fallið, sætaskipti gætu orðið hjá Liverpool og Chelsea og Fulham og Tottenham berjast um sæti í Evrópudeild UEFA.
Botnbaráttan er gríðarlega spennandi og það skýrist ekki fyrr en flautað verður til leiksloka á morgun hvaða tvö lið falla með WBA.
Middlesbrough er með 32 stig í næstneðsta sæti, Newcastle 34, Hull 35 og Sunderland 36 og geta þau öll fylgt WBA í fyrstu deild.
Liðin eiga öll erfiða leiki á morgun því Sunderland fær Chelsea í heimsókn, Hull fær meistara Manchester United í heimsókn, Middlesbrough mætir West Ham í London og Newcastle heimsækir Aston Villa.