Það ræðst í dag hvort það verður Burnley, lið Jóhannesar Karls Guðjónssonar, eða Sheffield United sem fylgir Wolves og Birmingham upp í ensku úrvalsdeildina en liðin mætast í hreinum úrslitaleik á Wembley í dag um úrvalsdeildarsætið. Það er mikið í húfi fyrir félögin en því hefur verið hent á loft að spilað sé upp á 60 milljónir punda sem jafngildir um 12 milljörðum íslenskra króna.
Burnley lék síðast í efstu deild fyrir 33 árum en Sheffield United féll úr úrvalsdeildinni fyrir tveimur árum.
,,Við eigum möguleika á að komast upp í úrvalsdeildina og spila í bestu deild í heimi og með bestu leikmönnum í heimi. Ef þetta er ekki hvatning fyrir leikmenn mína þá veit ég ekki hvað til þarf,“ segir Owen Coyle, stjóri Burnley en lið Burnley hefur undirbúið sig í Portúgal fyrir leikinn stóra.
,,Ég held að það sé meiri reynsla í liði Burnley. Lið þeirra hefur staðið sig vel í stóru leikjunum á leiktíðinni og við höfum tapað tvívegis fyrir því á tímabilinu. Í mínum huga er Burnley því sigurstranglegra liðið,“ segir Kevin Blackwell, stjóri Sheffield United.
Jóhannes Karl mun væntanlega hefja leik á bekknum hjá Burnley. Hann kom við sögu í 41 af 46 leikjum liðsins í deildinni á tímabilinu, þar af var hann 20 sinnum í byrjunarliði. Skagamaðurinn knái hefur skorað 6 mörk á tímabilinu og vonandi verða þau fleiri áður en dagurinn er allur.
Flautað verður til leiks á Wembley klukkan 14 að íslenskum tíma og þess má geta að leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.