„Það er auðvitað draumur að verða bikarmeistari í Englandi, þar sem vagga knattspyrnunnar er,“ sagði Guus Hiddink, knattspyrnustjóri Chelsea, eftir 2:1 sigur á Everton í úrslitum ensku bikarkeppninnar.
Hollendingurinn tók við Chelsea í vetur og var þetta síðasti leikurinn þar sem hann stjórnar liðinu. „Það hefði verið slæmt að vinna ekki neitt í vetur þannig að þessi sigur er sætur. Hann er líka viðurkenning á því sem ég og aðstoðarfólk mitt hefur verið að gera með félagið. Þessi sigur er hátt á lista yfir helstu afrek sem ég hef unnið í sambandi við knattspyrnuna,“ sagði Hiddink.