Eiður: Held að ég stefni aftur til Englands

Eiður Smári í leik með Barcelona gegn Osasuna.
Eiður Smári í leik með Barcelona gegn Osasuna. Reuters

Enska dagblaðið The Mirror hefur eftir Eiði Smára Guðjohnsen í dag að hann það væri mjög auðvelt fyrir sig að fara í ensku úrvalsdeildina á nýjan leik og hann viti af áhuga liða þar. Hann eigi hinsvegar eftir að ræða framtíð sína við Pep Guardiola, þjálfara Barcelona.

„Án þess að fullyrða neitt, held ég að það stefni allt í að ég fari aftur til Englands. Það er talsverður áhugi fyrir hendi hjá liðum í úrvalsdeildinni. Ég átti frábær ár í Englandi og þekki fótboltann þar út í gegn.  Ég er ágætlega þekktur þar og náði þar frábærum árangri. Menn vita hvaða reynslu ég bý yfir og vita að ég mun aðlaga mig fótboltanum þar á ný án vandræða," segir Eiður samkvæmt The Mirror en þó er óljóst hvort blaðið hafi rætt við hann sjálft eða hafi þetta annars staðar frá.

„Auðvitað yrði mjög auðvelt fyrir mig að fara aftur til Englands. Ég mun gefa mér tíma til að skoða heildarmyndina og að lokum tek ég ákvörðun sem byggir á fótboltanum og engu öðru," segir Eiður, sem á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.

„Það eru forréttindi að vera í liði eins og Barcelona og ég gæti ákveðið að njóta þess eitt ár enn. Það er erfitt að yfirgefa félag eins og Barcelona og strákarnir mínir spila með yngri flokkum Barcelona. En ég er með fótboltann í forgangi og ekkert annað. Ég er enn með mikinn metnað, á enn talsvert inni og ef þjálfarinn segir mér að á næsta tímabili muni ég spila enn minna en í ár, mun ég skoða aðra möguleika."

Eiður segir að hann hafi fundið til með leikmönnum Chelsea þegar þeir misstu af sigri í Meistaradeild Evrópu fyrir ári síðan, en nú er hann sjálfur orðinn Evrópumeistari með Barcelona.

„Ég er kominn með verðlaunapening um hálsinn, og það er meira en leikmenn Chelsea geta sagt. En ég varð fyrir sárum vonbrigðum eins og þeir í fyrra þegar þeir töpuðu úrslitaleik sem þeir áttu svo sannarlega skilið að vinna. Ég á að sjálfsögðu mjög góða vini hjá Chelsea, menn eins og Frank Lampard og John Terry, og þó ég hafi ekki komið inná í úrslitaleiknum sjálfum þá vona ég að þeir séu stoltir af mér sem vini og fyrrum samherja.

Allir leikmenn vilja spila sem mest og þrátt fyrir allt þá lék ég mitt hlutverk í þreföldum sigri Barcelona í vetur. Ég veit að ég er ekki mikilvægasti leikmaðurinn í hópnum en ég spilaði 30-40 af 70 leikjum liðsins á tímabilinu, tel mig hafa unnið þrennuna og lagt jafnmikið af mörkum til hennar og aðrir," segir Eiður í viðtalinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert