Dave Whelan, stjórnarformaður enska úrvalsdeildarfélagsins Wigan, kveðst reikna með því að missa knattspyrnustjórann Steve Bruce til Sunderland. Til þess þurfi þó Sunderland að samþykkja í síðasta lagi í kvöld að greiða Wigan 3 milljónir punda í bætur.
Wigan greiddi Birmingham 3 milljónir punda í bætur fyrir að fá Bruce til félagsins á sínum tíma og Whelan vill fá þá upphæð til baka frá Sunderland. Hann hefur verið í viðræðum við Niall Quinn, stjórnarformann Sunderland, um málið.
„Ég talaði við Niall í gær og hann sagði að málið yrði að komast á hreint í dag. Ég samþykkti það, vegna þess að við getum ekki verið í lausu lofti. Auðvitað vil ég ekki missa Steve. Þeir gerðu honum tilboð, ég leyfði þeim að ræða við hann, en það þarf að setja ákveðinn frest, og sá frestur rennur út í kvöld. Ég held að Steve hafi alltaf langað til að komast á Norðausturlandið, hvort sem það væri til Sunderland, Newcastle eða eitthvað annað, því hann er ættaður þaðan. Steve hafði ekkert rætt þann möguleika að hann færi til annars félags, en um leið og þetta kom upp, sagði hann mér allt um það á heiðarlegan hátt, eins og hans var von og vísa," sagði Whelan við Sky Sports í dag.
Whelan kvaðst reikna með því að missa Bruce, en hann færi ekki af stað í leit að eftirmanni hans fyrr en allt væri komið á hreint - eftir kvöldið í kvöld. Roberto Martinez hjá Swansea og Darren Ferguson hjá Peterborough hafa þegar verið orðaðir við stöðuna.
„Ég er viss um að við fáum 10, 15, 20 umsóknir um stöðuna og ef þessir strákar verða í þeim hópi, mun ég að sjálfsögðu skoða málið vel því þetta eru fínir strákar," sagði Whelan við Sky Sports.
Ferguson, sonur Alex hjá Manchester United, kom Peterborough uppí 1. deildina í vetur og Martinez hefur náð frábærum árangri með Swansea sem var nýliði í 1. deild í vetur og þótti spila besta fótboltann af öllum liðum deildarinnar.