Ancelotti ætlar að vinna Meistaradeildina

Carlo Ancelotti segir sínum mönnum í AC Milan fyrir verkum …
Carlo Ancelotti segir sínum mönnum í AC Milan fyrir verkum í kveðjuleik sínum hjá félaginu í gær. Reuters

Carlo Ancelotti, sem var ráðinn knattspyrnustjóri Chelsea í morgun, var ekki lengi að lýsa því yfir að takmark sitt væri að vinna Meistaradeild Evrópu með félaginu.

„Í mínum augum er Meistaradeild Evrópu stórkostleg keppni. Ég vann hana tvisvar sem leikmaður, 1989 og 1990, og það voru ólýsanlegar stundir. Eins var það þegar ég vann hana sem þjálfari AC Milan 2003 og 2007. Meistaradeildin er besta keppni í heimi sem allir vilja  vinna. Chelsea er með frábæran árangur í keppninni, hefur komist fimm sinnum í undanúrslit á sex árum sem er mikið afrek, en nú er komið að því að vinna hana, vona ég," sagði Ancelotti við sjónvarpsstöð félagsins, Chelsea TV, í morgun.

Ancelotti hefur í huga að vinna með sínum mönnum á svipaðan hátt og Guus Hiddink gerði. „Ég vil vera nálægur leikmönnum, og nálægur félaginu. Ég vil vera í sambandi við alla. Ég trúi á liðsheildina og samvinnu hennar, sem skiptir mestu máli þegar búið er til lið sem ætlar að láta draumana rætast. Það þarf gott skipulag, mikinn aga og mikinn metnað til að ná árangri og ég vonast til þess að geta sameinað þessa þætti. Ég vil nýta mína reynslu, og þá hæfileika sem ég bý yfir til að koma þessu í kring.

Öll lið þurfa takmark og hjá Chelsea er það afar einfalt. Að vinna Meistaradeildina, úrvalsdeildina, bikarkeppnina og deildabikarinn. Þetta er að sjálfsögðu ekki einfalt mál en aðalmálið er að koma saman góðri liðsheild," sagði Ancelotti sem verður fimmtugur í næstu viku og hefur stýrt AC Milan undanfarin átta ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka