Enski landsliðsmaðurinn Gareth Barry er genginn í raðir Manchester City frá Aston Villa. Að því er fram kemur á fréttavef BBC greiðir City 12 milljónir punda fyrir miðjumanninn sterka eða sem jafngildir 2,4 milljörðum íslenskra króna. Barry skrifaði undir fimm ára samning við Manchester-liðið sem ætlar að styrkja lið sitt verulega í sumar.
Barry átti eitt ár eftir af samningi sínum við Aston Villa en hann var nálægt því að ganga til liðs við Liverpool í fyrra. Villa vildi fá 18 milljónir punda fyrir hann en það verð voru forráðamenn Liverpool ekki reiðubúnir að greiða.
Barry er 28 ára gamall sem hefur leikið með Aston Villa frá árinu 1997. Hann lék 365 leiki með liðinu í ensku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 41 mark en Barry hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin ár. Þá á hann að baki 29 leiki með enska landsliðinu.