Takist Real Madrid ekki að kaupa Cristiano Ronaldo í sumar frá Manchester United, þarf liðið að borga honum 26 milljónir punda í bætur, samkvæmt klausu í samningi leikmannsins. Hinsvegar þarf liðið að greiða um 80 milljónir punda til að klófesta leikmanninn, að sögn varaforseta Real Madrid, Fernando Tapias.
Tapias var spurður að því, hvort leynisamningur hefði verið gerður milli Real og Manchester um Ronaldo og hvort þeir þyrftu að greiða 78.5 milljónir punda til að fá leikmanninn í sínar raðir. Og hvort þeir þyrftu að greiða sekt sem næmi 26 milljónum punda, til Ronaldo, ef leikmaðurinn neitaði að ganga í raðir liðsins.
„Já, en þetta er ekki okkur að kenna. Ronaldo er frábær leikmaður. Ég man þegar Figo var hjá okkur og var að lofsama þennan þá, mjög unga leikmann. Þetta verð er mjög hátt og kannski ætti FIFA að setja 50 milljón evra hámark á leikmannakaup,“ sagði Tapia í viðtali við spænsku útvarpsstöðina Caina Cope í gær.
Samkvæmt heimildum netmiðla á Spáni, var samningurinn gerður af fyrrum forseta Real Madrid, Ramon Calderon, og rennur hann út í júní.
Samningurinn kveður á um að ef Real reiðir fram ákveðna upphæð, um 80 milljónir punda, verði Manchester United að samþykkja kauptilboðið. Hinsvegar, kjósi leikmaðurinn að vera um kyrrt í Manchesterborg, þarf Real að greiða leikmanninum 26 milljónir punda í bætur.