Harry Redknapp knattspyrnustjóri Tottenham vonast til að hafa betur í baráttunni við Manchester City um að tryggja sér þjónustu Paragvæans Roque Santa Cruz sem er á mála hjá Blackburn.
Santa Cruz vill yfirgefa Blackburn og hafa Tottenham og Manchester City haft augastað á framherjanum stóra og stæðilega. Redknapp gæti þurft að reiða fram 10 milljónir punda fyrir Santa Cruz en knattspyrnustjórinn hefur fengið þau skilaboð frá stjórnendum félagsins að hann verði að selja leikmenn ætli hann sér að kaupa leikmenn í sumar.
,,Ef ég fæ þá leikmenn sem ég vil fá þá verðum með frábært lið,“ segir Redknapp við fjölmiðla í dag. ,,Ég veit að þeir koma til með að kosta samtals um 30 milljónir punda en það eru leikmenn hjá okkur sem við myndum láta fara frá okkur í staðinn.“
Aðrir leikmenn sem Redknapp er sagður hafa augastað á eru Kenwyne Jones (Sunderland), Ashley Young (Aston Villa) og Steward Downing (Middlesbrough).