Portúgalski knattspyrnumaðurinn Deco segir að hann ætli sér að losna frá enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea í sumar en þar fékk hann nánast engin tækifæri eftir að skipt var um stjóra í vetur og Guus Hiddink tók við af Luiz Felipe Scolari.
„Ég er samningsbundinn Chelsea en er með tilboð frá öðrum félögum. Ég vil láta mér líða vel og það er ekki til staðar hjá Chelsea. Ég vil komast að hjá félagi þar sem ég fæ að spila og nýt þess að vera í fótbolta," sagði Deco við vefmiðilinn Maisfutebol í dag en hann kom til Chelsea frá Barcelona síðasta sumar.
„Ég hef áður sagt að ég vil komast í burtu, ég hef ekki góða reynslu af því að vera hjá Chelsea," sagði Deco, sem m.a. hefur verið orðaður við Inter Mílanó þar sem landi hans og fyrrum lærimeistari, José Mourinho, er við stjórnvölinn.