Slegist um Eto'o

Eto'o fagnar marki sínu á móti Villarreal.
Eto'o fagnar marki sínu á móti Villarreal. Reuters

Manchester United og Manchester City eru í hópi knattspyrnuliða sem bítast um kamerúnska framherjann Samuel Eto'o. Kappinn á eitt ár eftir af samningi sínum við Barcelona sem er sagt vilja selja hann meðan tækifæri er. 

Eto'o, sem er 28 ára gamall, skoraði 34 mörk á leiktíðinni með Evrópu- og Spánarmeisturum Barcelona og átti heilt yfir ágætt tímabil þótt síðustu leikirnir, að undanskildum úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Róm, hefðu ekki gengið sem skyldi hjá honum.

Breska dagblaðið The Times fjallar um áhuga Manchesterliðanna á Eto'o með þeim orðum að United sé líklegra en City til að tryggja sér þjónustu hans.

Er Alex Ferguson sagður sérstaklega áhugasamur í ljósi þess að fylla þurfi skarð Ronaldos og mögulega Tevez, verði hann seldur.

Fullyrðir blaðið að City hafi boðið 25 milljónir punda, rúmlega 5,2 milljarða króna, fyrir Eto's, ásamt því að tryggja honum hæstu launin í ensku úrvalsdeildinni.

United er samt sagt bjartsýnt um að landa kappanum fyrir minna fé.

Með brotthvarfi Eto'o myndi ásýnd Barcelona óneitanlega breytast en hann hefur smellpassað inn í leikstíl liðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka